Sunday, July 12, 2009

Júlí

Krakkarnir Steina og Grace gistu hjá okkur:)
Ísak Andra fannst það ekki leiðinlegt! Ýtti Kjartani út um allt:)

Já þá er Júlí að verða hálfnaður, vá hvað tíminn líður hratt! Ísak Andri er orðinn 17 mánaða og voða stór strákur. Hann er farin að tala voða mikið, eiginlega allann daginn og við skiljum svona 5% af því sem hann segir:) Alltaf eru að koma fleiri og fleiri orð og okkur finnst hann svo klár. Nýjasta orðið sem hann segir mjög oft og við skiljum ekki er lallabó. Ég gerði samt tengingu í dag þegar latibær var í gangi og lagið byrjaði þá sagði hann lallabó og benti í stofuna. Þar af leiðandi er ég með þá hugmynd núna að þetta gæti hugsanlega þýtt latibær. Það er allavegana það eina sem hann ,,horfir" á. Og finnst honum rosalega gaman að dansa þegar lögin koma:)
Það er mjög mikið að gera hjá okkur í Júlí. Ekki í ferðalögum samt því Raggi er að vinna allar helgar í mánuðinum:( Gaman eða þannig. En við Ísak Andri höfum það samt fínt saman og erum alltaf að bralla eitthvað og leika okkur:) Væri samt fínt að hafa Ragga heima á daginn þegar ég hef verið á næturvakt! En þá reyni ég að fara í ræktina og Ísak Andri getur farið í daggæslu á meðan og leikið við önnur börn sem hann hefur auðvitað bara gott af:) Hreyfing er rosa fín stöð og er ég þvílíkt ánægð að vera farin að æfa þar og vonandi endist ég í því.
Við förum svo líklega á ættarmót helgina eftir verslunarmannahelgi og verður það örugglega eina ferðalagið okkar þetta sumarið... Nema maður komist norður á Akureyri. Það eru heil 3 ár síðan við fórum þangað og mig langar alveg rosalega. Hitta ættingja og fara á leiðin pabba og ömmu. Þetta er eitthvað sem ég hef gert á hverju ári síðan ég var lítil og mér finnst alltaf svo yndislegt að fara á Akureyri!
Í gær fórum við í fyrsta skipti með barnið okkar á slysó! Ekki gaman. Hann brenndi sig á sléttujárninu mínu og fékk blöður á tvo putta! Við ákváðum að fara með hann niðureftir þegar við vorum búin að láta renna á fingurna á honum í klukkutíma og hann var ekkert að róast nema þegar hann var með þá undir vatninu. Það var sótthreinsað og búið um þetta og hann verður með umbúðir í tvo daga. Ekkert alvarlegt en samt, vá hvað manni líður illa með lilta barnið sitt slasað. En svona er þetta. Slysin koma fyrir og eitthvað segir mér að með þennan pjakk að þetta verði ekki eina ferðin okkar þangað niðureftir!! Hann er samt furðuhress og þetta er ekkert að angra hann í dag. Brenndi sig líka á hægri sem er ágætt því þá truflar það hann minna og hann er ekki svo heftur. Getur alveg borðað sjálfur og allt. Meira segja furðuhreinar umbúðirnar eftir nokkra matartíma:)
Veðrið ætlar að leika við mann þessa dagana og um að gera að nýta það og gera eitthvað skemmtilegt eins og að kíkja niður í bæ, fara í picnik eða bara skella sér í húsdýragarðinn. Margt hægt að gera í Reykjavík, sérstaklega á sumrin:)

Minn maður með umbúðirnar, rosa sterkur!

Kann pósurnar alveg... sýna allar tennurnar.